Kvenhatur á öldum ljósvakans

Klerkur frá myrkustu miðöldum vill takmarka rétt kvenna yfir eigin líkama og skikka þær til að ganga með og fæða óvelkomin börn.  Guðfræðingur, ættfræðingur og mjög virkur innhringjandi á Útvarp Sögu tekur hressilega undir.  Tveir forpokaðir, miðaldra karlar að hlutast til um líkama og ákvörðunarrétt kvenna.  Eins og þeim komi málið eitthvað við.

Vantar bara innlegg frá kvenhatandi strætóbílstjóranum sem heldur því fram að einstæðar mæður eyði meðlaginu í djamm og leit að nýjum karli til að verma bælið sitt.  Láti sínar eigingjörnu þarfir ganga fram fyrir velferð barnanna sinna.  Noti svo fóstureyðingar eins og neyðargetnaðarvörn.

Stundum lekur svo mikið kvenhatur úr viðtækinu í símatímum Útvarps Sögu að mér verður illt.

Stjórnendurnir hleypa þessum vitleysingjum í loftið og þvertaka svo fyrir að vera með númerabirti til að geta stjórnað hverjir komast inn.  Sama sveitta fólkið nær inn á hverjum degi og flytur sömu sveittu ræðurnar aftur og aftur eins og rispaðar hljómplötur.

Það er reyndar enginn að neyða mig til að hlusta.  Geri það stundum í vinnunni þegar ég er orðinn leiður á skvaldrinu og síbyljunni á hinum stöðvunum.  Svo hlusta ég kannski ekki svo vikum skiptir.  En um leið og ég opna aftur fyrir þessa djöflarás þá dynur á mér sami sveitti söngurinn frá sama þreytta fólkinu með svörtu hjörtun sín.

Bjór í búðir!

„En hvað með börnin“ æpa foreldrar gegn áfengisauglýsingum með einn kaldan á kantinum.  Hvernig væri að losa afkvæmin fyrst við allt sykraða sælgætið og orkudrykkina áður en þið farið að grenja yfir áfengisfrumvarpi sem verður hvort sem er fellt því það er of yfirgripsmikið.  Reynir að breyta of miklu, of hratt.

Í þessari atrennu hefði verið nóg að leyfa bjórsölu.  Svo léttvín og loks sterkustu vínin. Taka þetta í þremur skrefum svo allt góða fólkið sem ræður ekki við sig nálægt áfengi geti vanist hugmyndinni.

En það mun heldur ekki gerast.  (Ó)virkir alkar ráða allt of miklu í þessu samfélagi.  Þess vegna neyðumst við til að þramma áfram í ríkisrekna áfengisverslun, greiða offjár fyrir veigarnar og fá kvikindislegar athugasemdir og augnaráð frá afgreiðslufólkinu.  Enda hljótum við öll að vera alkar fyrst við dýfum tungubroddinum af og til í görótta drykki.

Drykkir og dóp

Djöfull er ég orðinn leiður á því að fara í ríkisrekna áfengisverslun til þess eins að fá mér nokkra bjóra og borga þar andvirði handleggs og fótleggs fyrir mun sjálfsagðari vöru en allt sykursullið sem selt er í matvörubúðunum. Mikið vona ég að frumvarp Vilhjálms Árnasonar um frjálsa sölu á áfengi nái fram að ganga á þinginu.  Hættum þessari vitleysu!

Segir sig sjálft að ríkið á ekkert með að standa í verslunarrekstri.  Í kjölfarið verða þessir ofurskattar að lækka.  Hér drekkur þorrinn hvort sem er eins og bavíanar um helgar svo ljóst er að núverandi fyrirkomulag er ekki að gera neinar rósir nema safna krónum í ríkiskassann sem svo eru notaðar í eitthvað allt annað en forvarnir og meðferðir gegn áfengissýki.

Baráttan gegn eiturlyfjum er svo kapítuli út af fyrir sig.  Algjörlega tilgangslaust og dýrt stríð gegn glæpamönnum sem svífast einskis með ofbeldi.  Hættum þessari vitleysu og lögleiðum vægari lyf sem krefjast ekki sprautunála.  Skerum út ofbeldisfulla milliðinn. Leggjum niður fíkniefnadeild lögreglunnar sem virðist samkvæmt nýjustu fréttum vera í hálfu starfi hjá dópsölunum.

En hvað veit ég.