Afskiptasemi andskotans

Við Íslendingar hljótum að vera leiðinlegustu nágrannar í heimi. Getum varla búið saman í fjölbýli án þess að skipta okkur af næsta manni. Vera með leiðindi og frekju. Bara af því að við höldum að við megum það. Og oftast af fólki sem er hvorki með ófrið um nætur eða leiðindi á móti.

Nei, hér er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Á öryrkja og innigæludýrin þeirra sem bögga engan. Jú, nema þessa tvo nöldurseggi í blokkinni sem vita af þeim og geta ekki sofið um nætur með þá vitneskju í höfðinu. Kvarta þess vegna og kveina þar til dýraeigendunum er gert að ganga frá loðnum félögum sínum ellegar missa íbúðirnar sínar.

Ég get vel skilið að sumt fólk kunni ekki að meta gæludýr. Eflaust vegna þess að þau ólust ekki upp með dýrum. Kannski voru foreldrar þeirra þverir, skverir og hötuðu dýr. Mér þykir leitt að þau hafi misst af upplifuninni. Öll börn ættu að fá að knúsa hund, kött eða hvað sem er með fleira en tvo fætur.

Sumir röflarnir segjast vera með ofnæmi og þess vegna þurfi að murka lífið úr gæludýri nágrannans. Þetta er sama liðið og kvartar yfir grilllykt af svölum hinna íbúanna. Sömu tautararnir og mega ekki heyra í börnum án þess að reka upp ramakvein. Öskra svo og stappa niður fótum þegar þau fá ekki sínu framgengt. Svona lið á að búa eitt og yfirgefið upp á fjöllum fjarri mannabyggð. Alls ekki í fjölbýli!

Eitthvað til skiptanna

Simmi D. segir að fólk sé farið að skynja að eitthvað sé til skiptanna. Þess vegna séu kröfurnar svo háar. Og hvað með það! Megum við maurarnir ekki fá smá hlutdeild í bættu gengi landsins? Er það ófrávíkjanleg regla að gróðinn eigi að fara óskiptur í vasa atvinnurekenda og flokkseigandafélaga Framsóknar og Sjálfstæðisflokks?

Hér er duga engin verkföll. Hér hafa göngur og ræðuhöld á 1. maí ekkert að segja. Hér er þörf á byltingu. Að skjóta einni silfurhúfunni skelk í bringu hinum til viðvörunar svo þetta gráðuga pakk fattar að okkur er dauðans alvara að vilja lifa af laununum okkar. Að við samþykkjum ekki enn einn 2007 snúninginn. Ísland þolir ekki annað hrun.

Ég var ellefu ára 1984 þegar allsherjarverkfall skall á í september. Þvílík djöfulsins leiðindi og tilgangsleysi. Þar sannfærðist ég um að verkföll skila litlu sem engu þegar upp er staðið. Bara gerð til þess að láta okkur finnast við hafa einhver áhrif og völd.

Lausnin er einföld.

Mikið er leiðinlegt að þurfa að horfast í augu við afleiðingar eigin lífernis.  Að vera orðinn feitt flón með háþrýsting, áunna sykursýki og kæfisvefn.  Er ekki að meika grímuna sem ég á að vera með um nætur til að anda betur.  Við erum ekki vinir.

Finnst eins og eigi að aflífa mig.  Rétt eins og þegar verið var að svæfa mig í æsku. Leið alltaf ömurlega og fannst eins og verið væri að lóga mér.  Bjóst ekki við að vakna aftur.  Kvaddi í hvert sinn í huga mér.

Eflaust vegna þess get ég ekki sofið með grímu fyrir vitum mér.  Einnig vegna þess að ég vil ekki fá enn eitt hjálpartækið til að draga fram andann.  Hvernig væri bara að grenna sig og hætta þessu pilluáti og grímuglímu!  Come on! Lausnin er einföld! Hætta þessu sukki!