Bjáni, klappstýra og svartstakkur.

Simmi gleymdi að næla stórriddarakrossorðunni á sig þegar hann ávarpaði þjóðina á RÚV. Skrítið? Dæmigerð halelujaræða forsætisráðherra sem sér ekki óveðursskýin hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Hagvöxtur stendur í stað og bráðum nær efnahagslíf landsins verðhjöðnun í stað verðbólgu.

Hér er allt að fara til Helvítis og þeir sem geta á leið héðan. Allt vegna þess að trúgjarnir fávitar kusu aftur yfir okkur hrunflokkana tvo sem hugsa aðeins um hag útgerðargreifa og bændamafíu. Um hag flokksfélaga sinna. Allt á kostnað þegna landsins. Allt á kostnað upprisu landsins í samfélagi annarra evrópskra þjóða.

Forsetinn og biskupinn röfla yfir neikvæðri umræðu í samfélaginu. Að við getum ekki lifað á gagnrýninni einni saman. Nú eigum við halda kjafti og leyfa stjórnvöldum að sukka óáreitt. Gleðjast yfir hækkun á matarskatti og aukinni gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Þakka fyrir eftirgjöf til útgerðar og hinna efnameiri. Fagna að landinu sé stjórnað af silfurskeiðabandalagi pabbadrengja sem aldrei hafa óhreinkað hendur sínar við vinnu eða haft áhyggjur af því að eiga fyrir mat eða þaki yfir fjölskylduna.

Ég kvíði nýju ári með þessa stjórn áfram við völd. Á einu og hálfu er hún á að góðri leið með að rústa velferðarkerfinu, menntakerfinu og samfélaginu í heild. Þeim mun takast það á þeim árum sem eftir lifa af kjörtímabilinu. Ef við leyfum þeim það. Draumur þeirra er skyldubundið tryggingakerfi þar sem við neyðumst til að kaupa rándýrar tryggingar til að dekka alla menntun umfram gaggó og heilbrigðisþjónustu eftir fæðingu. Og tryggingafélögin verða að sjálfsögðu í helmingaskiptaeigu aðila úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Staulumst nú upp úr sófanum og öskrum þessa gjörspilltu stjórn út í hafsauga. Krefjumst kosninga. Kjósum svo allt annað en fimmflokk Bjartrar framtíðar, Framsóknar, Samfylkingar, Sjalla og Vinstri-Grænna. Þau munu engu breyta. Við verðum að gera þetta sjálf.

Áramótin

Síðasti dagur ársins gerir mig alltaf þunglyndan. Veit ekki nákvæmlega af hverju. Kannski sú staðreynd að þurfa byrja að nýju eftir miðnætti. Langar alltaf helst til að verja deginum í einsemd heima með slökkt á síma og neti. Eitthvað gott í glasi og skemmtilegt undir nálinni.

Náði mestu ólundinni úr mér með því að leggja mig fyrir kvöldmatinn. Annars hefði ég verið ómögulegur eins og í fyrra. Borðaði svo frábært smjörsprautað kalkúnaskip frá Hagkaup með mömmu. Algjör snilld. Ekkert þurrt heldur bara mjúkt og bragðgott. Sósan hennar gömlu skemmdi ekki fyrir.

Renndum í gegnum annálana og skaupið sem mér fannst bara fínt. Skil ekki sífellt væl og ofurvæntingar í fólki. Þetta er bara einfaldur skemmtiþáttur. Honum er ekki ætlað að leysa lífsgátuna. Þrömmuðum loks upp að Kópavogskirkju til að skoða túrista og flugelda í kringum miðnætti.

Er kannski að verða gamalmenni en rosalega fannst mér vera mikið um samfelldar og þungar sprengingar fram eftir kvöldi. Mikið af kraftmiklum kínverjum sem hristu nánasta umhverfi. Rétt svo að það kæmi smá hlé meðan skaupið var en varla svo. Kela kisa var ekki sama og skreið í felur eftir skaup þrátt fyrir stakkt hugrekki fram eftir kvöldi.

Skaupið var fínt!

Nýtt ár gengur í garð og kemur engum á óvart grátkórinn yfir skaupinu. Hvar stendur að það eigi að vera fyndið fyrir alla? Rífið ykkur bara upp af feitum rössunum og reynið að gera betur!

Var svo sem vitað fyrir fram að „kvennaskaup“ myndi aldrei eiga séns fyrir feðraveldinu Íslandi. Yrði alltaf rifið niður og sagt ófyndið. Mér fannst það fínt. Atriðin voru stutt, hnitmiðuð og fyndin fyrir þau okkar sem drullum ekki í sífellu í lófana okkar og köstum skít í skapandi einstaklinga fyrir að reyna að létta okkur lundina.