Simmi gleymdi að næla stórriddarakrossorðunni á sig þegar hann ávarpaði þjóðina á RÚV. Skrítið? Dæmigerð halelujaræða forsætisráðherra sem sér ekki óveðursskýin hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Hagvöxtur stendur í stað og bráðum nær efnahagslíf landsins verðhjöðnun í stað verðbólgu.
Hér er allt að fara til Helvítis og þeir sem geta á leið héðan. Allt vegna þess að trúgjarnir fávitar kusu aftur yfir okkur hrunflokkana tvo sem hugsa aðeins um hag útgerðargreifa og bændamafíu. Um hag flokksfélaga sinna. Allt á kostnað þegna landsins. Allt á kostnað upprisu landsins í samfélagi annarra evrópskra þjóða.
Forsetinn og biskupinn röfla yfir neikvæðri umræðu í samfélaginu. Að við getum ekki lifað á gagnrýninni einni saman. Nú eigum við halda kjafti og leyfa stjórnvöldum að sukka óáreitt. Gleðjast yfir hækkun á matarskatti og aukinni gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Þakka fyrir eftirgjöf til útgerðar og hinna efnameiri. Fagna að landinu sé stjórnað af silfurskeiðabandalagi pabbadrengja sem aldrei hafa óhreinkað hendur sínar við vinnu eða haft áhyggjur af því að eiga fyrir mat eða þaki yfir fjölskylduna.
Ég kvíði nýju ári með þessa stjórn áfram við völd. Á einu og hálfu er hún á að góðri leið með að rústa velferðarkerfinu, menntakerfinu og samfélaginu í heild. Þeim mun takast það á þeim árum sem eftir lifa af kjörtímabilinu. Ef við leyfum þeim það. Draumur þeirra er skyldubundið tryggingakerfi þar sem við neyðumst til að kaupa rándýrar tryggingar til að dekka alla menntun umfram gaggó og heilbrigðisþjónustu eftir fæðingu. Og tryggingafélögin verða að sjálfsögðu í helmingaskiptaeigu aðila úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.
Staulumst nú upp úr sófanum og öskrum þessa gjörspilltu stjórn út í hafsauga. Krefjumst kosninga. Kjósum svo allt annað en fimmflokk Bjartrar framtíðar, Framsóknar, Samfylkingar, Sjalla og Vinstri-Grænna. Þau munu engu breyta. Við verðum að gera þetta sjálf.