Dröslaðist með Pant í Bónus í Holtagörðum í hádeginu á gamlársdag. Bara til að grípa nokkrar nauðsynjar með mér. Gleymdi árlegu ÍR-hlaupi um Sæbrautina. Sex mínútu ferð breyttist í tuttugu og tvær vegna lokana. Leigubílstjórinn eipaði þrátt fyrir tikkandi mæli á hæsta taxta.
Heimferðin varð síst skárri. Hékk hálftíma í bílnum með annars vingjarnlegum bílstjóra sem skyldi því miður ekki íslensku og varla ensku. Má þakka fyrir að hafa komist heim eftir hringsól hans um Hallgerðargötuna. Við bara skyldum ekki hvorn annan.
Í Bónus var mættur annar hver maður og amma hans. Stressaðir feður á hraðferð eftir nauðþurftum. Slatti af miðaldra hjónum sem voru mun rólegri í rásinni. Kona ein vildi endilega aðstoða mig eftir verslunarferðina en ég afþakkaði kurteisislega. Og svo gamli, fúli og freki kallinn með alla sína lítra af nýmjólk í kaffið sitt.
Fúlmennið stillti sér fyrir aftan mig meðan ég var að klára á sjálfsafgreiðslukassanum og koma vörunum fyrir í kerrunni og snúa hnéhjólinu. Renndi kerrunni sinni svo næstum á mig og horfði ólundarlega á eftir mér. Þurfti endilega að fá minn sjálfsafgreiðslukassa þótt helmingur hinna væri laus. Ég breyttist næstum í Guðjón og kýldi hann í gólfið. Hætti við það og óskaði í staðinn aðstoðargaurnum hjá Bónus gleðilegs nýs árs.
Þoldi gamla fólið ekki að ég væri smá hreyfiskertur? Get svarið það. Kemur að því einn daginn að ég læt vaða í andlitið á svona frekjum og yfirgangsseggum. Hlýtur að vera eitthvað við smettið á mér sem fær fúla, gamla karla að hjóla í mig. Ef til vill lentu þeir einhvern tíma í þeim gamla forðum daga og halda að ég sé hann. Hver veit? Pabbi hefði umhugsunarlaust kýlt þá í gólfið fyrir svona frekju meðan ég læt allt yfir mig ganga.