Forneskja

Allir fjölmiðlar gasprandi hve spennandi forsetakosningarnar séu næstkomandi laugardag og mjótt á milli efstu frambjóðenda.

Mig grunar að kjörsókn verði sögulega lág rétt eins og utankjörfundarsóknin sýnir. Fólk gerir bara ráð fyrir að Katrín verði forseti og nenna þessu ekki. Fara bara frekar út úr bænum eða sitja heima yfir grillinu sötrandi léttvín og bjór.

Forsetaembættið er æðsta sendiherrastaða landsins og Guðni og Elíza sinntu því af kostgæfni. Hefði kosið að þau hefðu nennt því fjögur ár í viðbót, en allt í lagi. Lífið heldur áfram. Á auðvitað bara að breyta stjórnarskránni og leggja þessa forneskju niður rétt eins og ÁTVR. Nota peninginn í velferð og heilbrigði.

Enn eitt gosið

Blessað Reykjanesið má varla við meiru. Hvað þá Grindavíkin greyið. Að hugsa sér að gamli starfaði þarna og bjó í gamalli verbúð við höfnina fyrir rúmlega tveimur áratugum síðan. Nágrannar hans allir frá Afríku. Hann rasistinn varð á endanum kunningi þeirra og velgjörðarmaður. Hjálpaði þeim við að leysa úr hinum og þessum úrlausnarefnum.

En því miður hafa þessi tíðu gos komið illa við ferðamannaiðnaðinn. Hver vill ferðast til lands með sífelld eldgos. Skemmtiferðaskipin halda þó áfram að koma. Engin gos í Reykjavík. Bara lundabúðir.

Aumingi og byrði

Hef reynt að fara eftir skipunum lækna og hjúkrunarfræðinga síðustu þrjá mánuði að stíga ekki í vinstri fótinn. Stundum erfitt fyrir mann í yfirvigt án stórra byssa (upphandleggsvöðva). Verð greinilega að fara að rífa í lóðin til að geta ráðið almennilega við hækjurnar.

Hundleiðinlegt að geta ekki skroppið út í búð eftir pela af rjóma og krukku af sultu fyrir pönnukökurnar. Þurfa að panta allt á netinu með góðum fyrirvara. Er að minnsta kosti orðinn fullfær neytandi innlendrar vefverslunar. Og erlendrar. Með Indó kortinu mínu sem er snilld.

Get að vísu skroppið út og ætti að gera það fyrir hreyfingu og geðheilsu. En þori því ekki lengur eftir að erlendir ferðamenn stöðvuðu mig síðast fyrir myndatöku. Höfðu aldrei séð jafn feitan mann á hnéhjóli áður…eða eitthvað. Var eins og eitthvert sirkusdýr.

Var synjað um akstursþjónustu. Er víst ekki nógu fatlaður eða bar mig ekki nógu aumlega. Auðveldast væri að kaupa sjálfskiptan bíl ef eitthvert væri stæðið heima og ef ég ætti milljónir í banka. Aðeins hálft stæði á íbúð takk fyrir og fatlaða stæðið er upptekið. Stefna stjórnvalda í Reykjavík sem búa flest í 101 í göngufæri við nærliggjandi þjónustu. Úthverfin mega éta skít.

Játa fúslega að hafa farið ansi langt niður á tímabili og jafnvel gælt við að kveðja þessa vesælu veröld. Allt hefur verið á móti mér. Ónýtur vinstri fótur og ónýtt vinstra auga. Fékk þó fljótt viðtal hjá augnlækni í gegnum klíkuskap og fór í fyrstu sprautuna af þremur til að fjarlægja bjúg á vinstra auga fimmtudaginn síðastliðinn. Og hitastig vinstri fótarins fer lækkandi. Þolinmæði þrautir allar vinnur.

Skammast mín hinsvegar fyrir að geta ekki verið til staðar fyrir aldraða móður mína og fært henni linsoðin svartsfuglsegg. Gengið frá heimilinu hennar og komið henni í skjól inn á hjúkrunarheimili. Skammast mín fyrir að geta ekki mætt til vinnu með strætó.

Ég var ekki alinn upp til að vera aumingi og byrði á samfélaginu. En sætti mig við það tímabundið upp á þá veiku von um geta gengið aftur í nánustu framtíð. Og sinnt vinnu án þess að vera upp á aðra kominn.