Auminginn IV

Eitthvað að rofa til í akstursþjónustumálinu. En þó varla fyrr en í næstu viku. Annars er bara að sníkja far sem er mér þvert um geð eða skakklappast með strætó á hnéhjólinu til vinnu.

Planið er að slökkva á Netflix og halda til vinnu um mánaðarmótin. Er orðinn geðveikari en ég var (sem ég hélt að væri ekki hægt) og hundleiður á þessu hangsi. Hvar stendur að hangs heima lækni nokkuð?

Gerði vísindalega tilraun í dag með því að panta vörur frá Heimkaup án þess að nota hraðþjónustu. Og hvað gerðist! Gaurinn bar allt draslið upp til mín eftir að ég hleypti honum inn með dyrabjöllunni. Ekkert „hurðin er biluð“ kjaftæði og „getur þú komið niður og hleypt mér inn“.

Aumingi með Bónuspoka III

Sex vikur án göngutúra og inniveru taka sinn toll. Allt þol er horfið og ég kemst varla á milli herbergja án þess að standa á öndinni.

Pantaði sitthvað með Heimkaup um helgina því engin sendingargjöld voru í gildi. Eins og síðast þá hringdi sendillinn og sagðist vera fyrir utan. Ég spurði á móti hvort að hurðin virkaði ekki og hann svaraði nei.

Auminginn ég brunaði á hnéhjólinu niður með lyftunni. Á móti mér mættu mæðgur nýkomnar í gegnum útidyrnar með hjálp dyrasímans. Fyrir utan stóð sendillinn. Sem betur fer bauðst gaurinn til að bera pokana með mér upp á þriðju hæð þegar hann sá ástandið á mér og ég þakkaði kærlega fyrir.

Eitthvað er að rofast til í akstursþjónustunni. Kemur í ljós í vikunni. Langar bara svo til að mæta aftur til vinnu. Er að verða geðveikur á Netflix og hangsi heima étandi netpantaðan mat. Þessi fótur er ekkert að fara lagast á nokkrum vikum. Sumar og haust verða undirlögð af heltu og leiðindum.

Aumingi með Bónuspoka II

Tékkið í dag var svo sem í lagi. Hitinn fer smá saman lækkandi í fætinum. Þolinmæði þrautir vinnur allar. Alltaf einhverjir nemar og gestir viðstaddir. Einhver sleði sló um sig og tjáði mér í óspurðum fréttum að ég þyrfti að láta sérsmíða á mig skó í framtíðinni til að vernda iljarnar fyrir meiðslum. Nota þykk innlegg og bla bla bla my ass. Hefur gaurinn aldrei heyrt um öryggisskó með stálplötu í botninum!

Hringdi í flesta augnlækna höfuðborgarsvæðisins til að panta tíma. Biðin frá tveimur upp í níu mánuði. Virðast engir nýir bætast við stéttina og minn fór á eftirlaun fyrir tveimur árum. Hefði betur pantað tíma um leið og hann hvarf út á golflendurnar. Huggun harmi gegn að ég er á biðlista hjá stofu rétt hjá vinnunni. Ætti að geta skotist samdægurs ef tími losnar.