Vetrardvöl fjarri Íslandsströndum

Nóvember er skollinn á með kulda en fallegu sólarlagi síðla dags. Enn hefur ekkert hvítt ógeð lagst á jörðina. Lognið á undan storminum. Vetur konungur bíður handan hornsins. Og enn eitt eldgosið er í startholunum.

Auðvitað væri réttast að halda suður á bóginn og dvelja þar að minnsta kosti næstu fjóra mánuði meðan mesta myrkrið dynur á djöflaeyjunni. Sinna fjarvinnu í gegnum netið, borða betur fyrir minni pening. Kíkja á ströndina eftir vinnu. Elta raddir er kvölda tekur og ræða við nýtt fólk.

En nei, frekar hangi ég hér eins og hor upp á vegg og tek vandarhöggunum fegins hendi. Beygi mig betur og bið um meira í ósmurðan óæðri endann. Sætti mig við myrkrið og mannaskítinn. Set undir mig höfuðið með von um minni hálku.

„Horfðu á björtu hliðarnar,
heimsstyrjaldir verða í öðrum löndum.“

(Sverrir Stormsker).

Kvennaverkfall II

En að öllu gríni slepptu. Að þörf sé á kvennaverkfalli tæpri hálfri öld eftir hið fyrsta er bara fáranlegt. Erum við ekki komin lengra! Kannski aðeins launalega séð en alls ekki hvað varðar kynbundið ofbeldi.

Kallakallar fá að vaða áfram þess fullvissir að aðeins innan við tíu prósent líkur eru á að þeir verði sakfelldir fyrir dómi.

Kvennaverkfall

Við karlmenn erum upp til hópa fávitar og illa gerðir til sambúðar með konum. Ágætir til undaneldis en annars frekar vonlausir.

Marga yngri menn hefur þó tekist að þjálfa til hlýðni gegn því að fá að láta sér vaxa skegg og fá tvo bjóra á menningarnótt.