Skin og skúrir

Síðustu þrjár vikur hafa verið frekar sveittar. Bullandi nefkvef og hósti. Illvíg sýking í fæti eftir að hafa dottið eins og fáviti í vinnunni með sköflunginn á hornið á vörubretti. Skinnið flettist af og sýking komst í sárið. Sýklalyf og umbúðaskipti hjá heilsugæsluhjúkkum síðustu tvær vikur því fóturinn var orðinn tvöfaldur að stærð.

Leifar af kvefi vilja seint fara. Hósta enn og snýti mér, en er ekki lengur að kafna. Líður mun betur en er hættur að geta sungið jafn djúpt og Lee Marvin, Jim Reeves og Þorvaldur á sjó. Sýkingin horfin en smá bjúgur er eftir. Sárið loksins gróið.

Það skiptast á skin og skúrir.

Þar sem er reykur…

þar er eldur. Eitthvað sem fótboltabullur og kallakallar þessa lands mættu íhuga þegar kappinn kemur loks heim frá landi Engla og Saxa eftir tveggja ára farbann sem hann sætti vegna rannsóknar á mögulegum brotum hans gegn ólögráða einstakling(um).

Hálf aumkunarvert að fylgjast með landanum vorkenna manninum. Getur alveg verið sekur þó talið sé að sekt verði ekki sönnuð fyrir dómstólum. Færð varla tveggja ára farbann út á orðróm. Einhver(jar) steig/stigu fram. Vorkennið frekar þolendum sem þurfa að bíða eins lengi, ef ekki lengur eftir niðurstöðu í sínum málum.

En það skiptir íslenska bolinn engu máli. Verða sennilega haldnir tónleikar honum til heiðurs í Háskólabíó með úrvali af misskildum tónlistarmönnum og vinum þeirra. Enginn er settur út á gaddinn á Ísalandi hinu góða, nema þá helst ungar konur sem lenda í svona úlfum og er svo ekki trúað.

Nenni þessu rusli ekki lengur

Að vera fimmtugur einstæðingur án hugmyndaflugs er slæmt fyrir mallakútinn. Að grípa það sem er hendi næst og fljóteldað gerir mér ekki gott. SS pylsur úr búð eru drasl. Voru það ekki, en eru það núna. Goði er betri, en bestar eru þær á Bæjarins Bestu.

Allt er orðið svo dýrt að ég neyðist til að græja nestið sjálfur í stað þess að kaupa rándýrar Sómasamlokur. Er haldinn matarást á vinnufélögum mínum sem mæta með girnilega matarafganga að heiman í hádegisverðinn. Hlýt að geta slíkt sjálfur og lækkað matarkostnaðinn umtalsvert.

Og hætta að innbyrða rusl.