Fölsku flaggi veifað

„Áfengi í matvöruverslanir“ hefur verið frelsisflagg Sjálfstæðisflokksins í áratugi fyrir kosningar. Veifað af nýjum þingmönnum í upphafi hvers kjörtímabils og lofað að leggja fram fyrir þing í lok kjörtímabils. En aldrei hefur neitt gerst. Enda engin alvara að baki.

Svo hefur netverslun tekið við sér með heimafesti í öðrum löndum en lager hérlendis. Einhver dómsmál eru í gangi um réttmæti þess og munu vonandi daga uppi. Á meðan nýtir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tækifærið og veitir íslenskum framleiðendum loksins þann sjálfsagða rétt að geta selt framleiðslu sína beint frá býli til viðskiptavina sem koma í heimsókn.

Jón Gunnarsson er ekki allra en fær þó prik frá mér fyrir að koma sjálfsögðum málum áfram í stað þess að hjakka í sama farinu og bíða eftir samþykki annarra sem engu þora.

Svolítið skrítið að ekki megi leyfa einhvern hlut vegna þess að eftir á að gera eitthvað annað sem er framar í forgangsröðinni. Með slíkum rökum verður ekkert gert. Aldrei. Sem er án efa það sem margir vilja. Halda öllu óbreyttu í sama djúpa farveginum og leiðindunum.

Ömurlegast er þó að fólk skuli í sífellu falla fyrir lygi Sjálfstæðisflokksins og rísa upp á afturlappirnar í hvert sinn sem þau tala um möguleikan á áfengi í matvöruverslanir. Eitthvað sem verður seint framkvæmt af þeirra frumkvæði, heldur mun gerast af sjálfu sér með aukinni netverslun innanlands og landa á milli.

Hættið að berjast við vindmyllur. Þær munu koma hvort sem þið viljið eða ekki. Þannig hagar framtíðin sér.

Jakkaföt

Fékk fyrstu jakkafötin fyrir fermingu. Önnur fyrir 25 ára afmælið sem dugðu í nokkur ár á djamminu.

Ætti ég að fá mér þriðju fyrir fimmtugsafmælið? Er hrifnari af stökum jakka og buxum án bindis.

Neysla sorps

Merkilegt að ég skuli frekar neyta sorps heldur en að leggja smá erfiði á mig við að velja betra hráefni og meiri tíma við að elda betri máltíðir.

Brauð er gott dæmi. Hendi frekar algengasta hvítu eða grófu í körfuna heldur en að velja af kostgæfni. Og dauðsé svo eftir því þegar mig langar í gott brauð með áleggi og osti. Fara í bakarí.

Er reyndar búinn að sætta mig við að geta ekki eldað almennilegan borgara eða pizzu. Pikka því frekar upp hjá Yuzu, Plan B Burger, Natalia eða Castello.

Borða allt of lítið af fiski. Samt er frábær Fiskbúð Fúsa nánast í gönguleið frá vinnunni. Verð að heilsa oftar upp á kallinn.

Letin fær mig til að borða vitlaust. Verð að láta af henni.