Dómstólar

Einhliða umfjallanir og dómharka götunnar einkenna samfélagið. Þú færð einnar hliðar frásögn af máli fórnarlambs og meintur gerandi er dæmdur úr leik umsvifalaust. Sviptur vinnu og settur á varamannabekkinn. Og allir kenna Öfgum um.

Fáum seint að heyra hlið gerandans nema eftir krókaleiðum samskiptamiðla og þá með löngum hala athugasemda fólks sem ætti kannski að anda með nefinu áður en þau hamra á lyklaborðin sín.

Vissulega hefur lengst af hallað á fórnarlömb í samfélaginu. Dómskerfið brugðist þeim ítrekað. Og þar til það lagast mun dómstóll götunnar ráða ferðinni. Og athugasemdarkerfi samfélagsmiðla.

Virðist að mestu vera óttalegur væll

Úrslit landliðsins í handbolta hafa sent okkur inn í ný myrkur janúars. Júróvisjón átti að pikka okkur upp. En nei!

Átta atriði af tíu í forkeppni Eurovision virðast við brotahlustun á RÚV í gærkvöldi vera óttalegur væll. Aðeins Móeiður og Langi Seli og Skuggarnir standa út úr fyrir okkur gamla fólkið.

Restin er ungt, samkynhneigt og allskonar hneigt fólk. Fótboltahomminn frá Svíþjóð virðist hafa vinninginn á Spotify.

Er þó ekki viss um að ég nenni að fylgjast með íslensku undankeppninni fram í mars! Hér er ekkert rokk, rapp, kántrí, Reykjavíkurdætur eða Daði á ferð.

Ætti kannski að nýta tímann í eitthvað nytsamlegra næstu helgar.

Miðjumaðurinn

Skil engan veginn miðjumanninn sem neitar að víkja til hliðar þegar hann mætir mér á illa ruddum og þröngum göngustígum Borgartúns í támjóu banksteraskónum sínum.

Hann rekur frekar vinstri öxlina í mig. Meðan ég reyni að víkja eins langt til hægri án þess að lenda í snjóskafli.

Er ég of kurteis og eftirlátssamur. Ætti ég kannski frekar að skalla viðkomandi? Kenna honum hvar Davíð keypti ölið!