Himnahallir

Svo sorglegt að sjá borg og ríki lofa upp í ermar sér. Að þjóðarhöll muni rísa á einhverju frímerki fyrir aftan gömlu þjóðarhöllina sem má muna sinn fífil fegurri og ætti auðvitað að vera rifin til að rýma fyrir nýrri og mun stærri höll.

Ekkert fjármagn tryggt. Engin hönnun farið fram. Engin rekstraráætlun liggur fyrir og skipting kostnaðar milli borgar og ríkis. Bara viljayfirlýsing og óútfylltur tékki á komandi kynslóðir því fjárhirslur borgarinnar eru tómar.

Rétt eins og Borgarlínan er Þjóðarhöllin yfirlýsing um glæsta framtíð sem svo aldrei verður. Temprun á væntingar fólks. Frestun þar til einhver önnur lygi er fullmótuð og tilbúin að fjúka í augu okkar í rykformi.

Eitruð karlmennska

Allt í einu eru ofdekraðir mömmudrengir ekki lengur í fyrsta sæti með rauðan dregil fyrir framan sig í gegnum lífið. Og það fer í taugarnar á Jordan Peterson, Andrew Tate og Bergþóri Ólafssyni sem telja það karlmennsku að þeir fái að ráða ferðinni og að konur séu bara hlutlausar í farþegasætinu. Þannig virki samfélagið best…fyrir þá.

Apaheilarnir þrír hafa líka miklar áhyggjur af ungum drengjum og unglingspiltum. Að þeir fái ekki lengur að frekjast áfram í forréttindum í gegnum skólakerfið meðan stúlkum er sagt að sitja þægar á hliðarlínunni og eftirláta þeim allt plássið.

Úr hvaða holum skriðu þessir andskotar? Húkkuðu þeir sér far saman með tímavél frá miðöldum? Vonandi druslast þeir bara til þeirra kima heimsins sem nenna enn svona leiðindum. Ég get þá að minnsta kosti ekki lengur og skil ekki af hverju fjölmiðlar sýna þeim athygli. Boðskapur þeirra og predikanir eiga heima á sorphaugum sögunnar.

Borgarlínan sem aldrei verður

Nýjasta innleggið í þessa hít sem aldrei verður er Keldnalandið.

Sem farþegi með strætó mestan part ævi minnar, þá fullyrði ég að fæstir vilja nýta slíkan ferðamáta nema í algjörri neyð. Og ég komst að þessari staðreynd löngu fyrir tilkomu farsíma, erlendra og dónalegra bílstjóra, ferðamanna og leiðinlegra samfarþega sem geta ekki haldið kjafti öskrandi í símana sína.

Íslendingar eru eins og Margaret Thatcher sem hélt því fram að fólk eftir þrítugt sem ferðaðist enn með strætó stæði sig ekkert sérstaklega vel í lífinu. Við sættum okkur við þennan ferðamáta í grunn- og framhaldsskóla en forðumst hann eins og heitan eldinn eftir háskóla þegar heimilisbókhaldið leyfir að minnsta kosti einn skrjóð til að skrölta á milli staða.

En þessi sannleikur virðist ekki skila sér til smjörkúkanna úr Sjálfstæðisflokknum sem stjórna Betri samgöngum. Eða kannski gerir hann það og þess vegna eru þeir að brjóta niður Strætó s/f og leggja af leigubílastöðvar með nýjum lögum um leigubílaakstur. Borgarlínan er biðleikur meðan gömlu kerfin eru brotin niður eða einkavinavædd undir gæðinga Sjálfstæðisflokksins.