Fyrsta af tíu sem fylgdu í kjölfarið fram til 2003. Fáranlega gaman. Allt svo nýtt og veðrið gott fyrir utan haglélið síðdegis á sunnudeginum.
Sama dag var ég næstum því barinn tvisvar af einhverjum hausum sem líkuðu ekki við andlitið á mér. Bitchslappaður og hrint fram af þaki salernanna og svo reynt að sparka af mér hausinn við tjörnina. Báðar árásir frá rugludöllum sem vinir mínir annað hvort þekktu frá fyrri tíð eða unnu með það sumar.
Ósköp lítill í mér og brjálaður yfir að hafa ekki slitið af þeim hausinn skreið ég heim að tjaldinu og vorkenndi sjálfum mér. Sá svo Löwenbrau bjórana sem Trausti hafði skilið eftir þegar hann gafst upp á dalnum fyrr um daginn og flúði heim með Gubbólfi. Hann hafði séð nóg af Sódómu og Gómorru fyrir sinn smekk.
Þeir voru ekki slæmir. Skellti nokkrum í mig og hélt hress og glaður upp í brekku. Rakst aftur á indælu stelpuna sem ég hafði hitt kvöldið áður og við leiddumst alla kvöldvökuna. Kynntumst. Kysstumst undir morgun, Urðum tvö ein í heiminum inn í tjaldinu hennar.
Hefði aldrei átt að sleppa henni mér úr greipum. Hún bjó á Suðurlandi. Ég í Kópavogi. Fyrir tíma far- og snjallsíma. Fyrir tíma netsins. Bara landlínan og rútúferðir á milli. Meikaði það ekki. Þurfti að klára menntó þá um veturinn. Hef séð eftir henni æ síðan.
Rétt eins og svo mörgum öðrum sem ég einhvern veginn glopraði úr höndum mér óviljandi eða viljandi. Núna kominn yfir fimmtugt, barnslaus, allslaus og án nokkurrar reynslu frá langtímasamböndum er klappað í steininn að það er ekkert að fara að breytast úr þessu. Konur krefjast heilbrigðisvottorðs í formi skilnaðar og barna.