Siggi vs Simmi

Ætti kannski að bölva framboði Sigurðar Inga, því ef hann verður formaður mun Framsókn sennilega fá mun meira fylgi en með Simma D. í brúnni.  Nema náttúrulega að fjósafasistarnir fái enn meira fylgi eftir að Simmi sigrar Sigga?  Hver veit.

Það virðist því miður ríkja einhver Trumpismi í stjórnmálum landsins.  Fávitar fá að vaða uppi sem fávitar og hljóta fáranlega hylli fyrir.  Kannski vegna þess að fólk sér að hin leiðin virkar ekki sem skyldi.  Að kjósa alvörugefið og gáfað fólk til ábyrgðarstarfa á Alþingi stoðar lítið.  Þau virðast öll falla í sömu gryfju ég um mig frá mér til mín.

Sigurður Ingi er gamaldags framsóknarmaður.  Vel metinn dýralæknir og bóndi af Suðurlandi.  Að sögn mannasættir og laus við allar geðvillur sem hrjá núverandi formann. Að vísu einn af höfundum nýja búvörusamningsins og ráðherrann sem flutti Fiskistofu með manni og mús til Akureyrar úr Hafnarfirði.  Samt sem áður mun skárri kostur en félagi Napoleon sem nú er formaður.

Nöttarinn III

Maðurinn í hettuúlpunni leggur bíl sínum á hverjum morgni.  Gengur fyrir framan hina bílana og lítur inn um sérhvern þeirra bílstjórameginn.  Gengur svo yfir götuna og hverfur eitthvert inn í skrifstofulandið með skjalatöskuna sína.

Breytir litlu þó skínandi sól og svækjuhiti séu úti.  Hettumávurinn mætir í úlpunni með klút fyrir vitrum sér.  Ekur bílnum meira að segja þannig.  Má greinilega ekki þekkjast.

Nöttarinn II

Sátum úti við kaffihús í Aabenraa í Danmörku í sumar þegar systir Georgs Bjarnsfreðssonar fór óumbeðin að halda tölu yfir okkur gestunum.  Skyldi lítið sem blessuð konan var að þruma yfir okkur, en það var eitthvað á þá leið að hún væri með fimm háskólagráður og hefði verið kennari áður en hún tapaði sér.  Kurteis kaffiþjónn bandaði henni frá.  Hún gekk þá niður verslunargötuna húðskammandi einhvern ímyndaðan einstakling.  Sennilega hefur hún bara gleymt að taka lyfin sín, því geðheilbrigðiskerfið í Danmörku er án efa mun betra en á Íslandi.