Túrisminn

Gerði heiðarlega tilraun til að gerast ferðamaður í eigin miðbæ í gær eftir vinnu. Þrammaði sem leið liggur niður Laugaveg, upp Frakkastíg að Hallgrímskirkju og loks niður Skólavörðustíg og Bankastræti til að skoða regnbogatröppurnar við MR.

Gekk frekar hægt.  Ekki þverfótað fyrir túristum með massívar myndavélar um hálsinn mælandi á erlendar tungur.  Alls staðar hönnunarbúðir, veitingastaðir og lundasölur.  Nóg að gera á flestum stöðum.  Gjaldeyrir að streyma inn í þjóðarbúið.

Hvíldi lúin bein (og aukakíló) á bekk á leiðinni og fór að velta fyrir mér hvað allir þessir erlendu gestir væru að gera hér í þessari frekar lágreistu og litlu borg.  Hér væri nú lítið um að vera og fátt að skoða.  Mundi svo eftir öllum trjánum í Danmörku og flatneskjunni. Skorti á yfirsýn og útsýni.

Í Reykjavík og nágrenni sést hinsvegar mikið í kring.  Fá háhýsi sem skyggja á og höfuðborgarsvæðið er hæðótt og fjölbreytt með hafið og fjöllin í nánasta umhverfi. Hægt að draga djúpt andann og fá hressandi hafgolu í lungun.  Og hér er alltaf eitthvað um að vera.

Megum hinsvegar hlúa mun betur að og byggja hratt upp ferðamannastaðina út á landi. Annars töpum við gestunum okkar og þau fara eitthvert annað þar sem þau þurfa ekki að vaða leðju og gera þarfir sínar út í mosagrónum móa.

Eins í borginni.  Heyrði á tal tveggja gangandi lögregluþjóna sem söknuðu upplýsingaskilta svo þeir þyrftu ekki alltaf að vera að svara einföldustu spurningum ferðamanna.  Sjálfur sakna ég fleiri almenningssalerna.

Annars erum við bara nokkuð góð í því að græða á túrismanum á daginn og grilla á kvöldin. Fer ekki annars að styttast í næsta hrun?

Gleðjumst!

Gleðidagar í gangi.  Fylgdist síðast með göngunni fyrir tveimur árum.  Nenni ekki á hverju ári og efast um að nenna núna. Allt of mikið af fólki.  Myndi vilja vera minna mannafælinn og geta glaðst með og stutt alla sem eru hinsegin.

Fordómar á Íslandi virðast vera að minnka gagnvart öðrum kynhneigðum, en ávallt sitja eftir einhverjir miðaldra þverhausar með apaheila og blogga frá kjallaraholum sálar sinnar þess fullvissir að samkynhneigð sé smitsjúkdómur sem geti borist til barna sem horfa á gönguna með foreldrum sínum.

Skilja ekki og neita að trúa því að hneigðir okkar eru sennilega flestar meðfæddar. Og þó svo að þær séu samkvæmt persónulegu vali einstaklinga, þá kemur þeim það nákvæmlega ekkert við. Ættu frekar að rífa hausana úr rassgötunum á sér og virða fyrir sér birtu og gleði lífsins í stað þess sitja í keng og bölva hinsegin fólki af því að það er ekki nákvæmlega eins og þeir karlfauskarnir með sín myrku hjörtu og hatur á lífinu.

Gleðjumst og verum jákvæð!  Fögnum fjölbreytileika lífsins!

Afrek helgarinnar

Helgin virðist ganga nokkuð vel.  Enginn búinn að tapa lífi en því miður allt of mörg ofbeldisverk.  Allt of margir karlmenn með lítið sjálfsálit og skerta tjáningarhæfileika ákveða að láta hnefann tala í stað þess að nota það litla vit sem þeim var gefið í vöggugjöf.

Lítilmannlegt af lögreglunni í Eyjum að monta sig af handtöku á stórtækum dópsölum meðan hún neitar að upplýsa um kynferðisbrot, sem eru mun alvarlegri glæpir.  Hverjum er ekki sama um dópista og þeirra dílera.  Sjálfskaparvíti beggja aðila.  Tilgangslaust að eltast við slíkt fólk.

Fórnarlömb nauðgara hafa hinsvegar ekkert val.  Og virðast gleymast hjá löggæsluaðilum. Allt snýst um tölfræðina.  Ná nógu miklu af dópi.  Að handtaka nauðgara skilar engu í afreksbókina.