Ekki vera fáviti!

Veröldin er rispuð plata undir hvassri nál.  Árleg ágreiningsefni endurtaka sig og engin niðurstaða fæst.  Við höldum bara áfram að rífast frá þeim punkti sem frá var horfið. Þannig er umræðan um Þjóðhátíð í Eyjum og þá staðreynd að þar blómstrar enn nauðgunarmenningin þrátt fyrir alla gæsluna, myndavélarnar og vilja yfirvalda að sporna gegn þessum glæpum.

Ef til vill vegna þess að þar má engu breyta!  Ekki svara fjölmiðlum um tilkynnt kynferðisbrot, heldur bara hve mikið af söluskömmtum af ólöglegum fíkniefnum hundarnir náðu að þefa uppi þá og þá nóttina og hve vel allir skemmtu sér í Herjólfsdal undir dynjandi tónlist flytjandanna á brekkusviðinu.

Merkilegust finnst mér umræðan á netinu.  Að láta fjölmiðlum í té upplýsingar um fjölda kynferðisbrota geti skaðað rannsóknarhagsmuni og komið sakleysingjum í vanda.  Menn eru ranglega sakaðir um glæpi nær hverja helgi í Reykjavík án vandkvæða.

Vissulega hefur fræg saga sveimað lengi milli manna sem segir frá gaur sem var dreginn saklaus úr tjaldi sínu með látum af lögreglunni í Eyjum fyrir að sænga hjá stelpu á föstu sem vildi ekki láta nappa sig og hafði því kært strákinn fyrir nauðgun í geðshræringu sinni svo ekki kæmist upp um hana.

Varla er þessi einstaka frásögn ástæðan fyrir útilokun fjölmiðla yfir Verslunarmannahelgina.  Eða er ástæðan sögurnar um starfskonur Stígamóta (þegar þær máttu náðarsamlegast mæta í dalinn) sem eiga að hafa dregið sauðdrukkna og sveitta drengi í ástarbríma af stynjandi stelpum og sakað þá um nauðgun að ósekju?

Druslugangan fer fram næsta laugardag.  Skilum skömminni þangað sem hún á heima. Hættum að þegja kynferðisofbeldi í hel.  Vildi óska þess að Þjóðhátíð í Eyjum myndi dröslast inn í nútímann, taka Eistnaflug sér til fyrirmyndar, og krefjast þess af gestum sínum að vera ekki fávitar.

EKKI VERA FÁVITI!

Þjóðhátíð nauðgara nálgast

Eftir tvær vikur brestur á mesta nauðgunarhelgi ársins í Vestmannaeyjum.  Sjálf Þjóðhátíðin í Eyjum með öllum sínum dásemdum en jafnframt árshátíð nauðgara á Íslandi því þar eru árásir á konur þaggaðar niður fram yfir helgi og dregið úr alvarleika þeirra.  Allt svo skuggi falli ekki á sjálfa hátíðina og fólk hætti ekki við að mæta á laugardegi og sunnudegi.

Er sem áður var þegar ég dröslaðist í Dalinn með vinum mínum og fjölskyldu. Maður heyrði varla af nauðgun eða líkamsáras.  Slíkt þótti sæta tíðindum og var tekið alvarlega. Nú snýst hinsvegar allt um peninga eftir að farið var að sigla úr Landeyjarhöfn.  Skítt með öryggi og réttlæti þeirra sem sækja hátíðina heim.

Kvenfyrirlitningin lekur af dagsskrá og öryggisgæslu hátíðarinnar.  Aðallega karlkyns flytjendur og hjálparsveitarlærlingar af fastalandinu.  Skil ekkert í stelpum að mæta þangað til þess eins að verða að mögulegum fórnarlömbum sem sennilega fá aldrei réttlæti fyrir þá glæpi sem þær eru beittar í dalnum góða.

Lögreglustjórinn Páley Borgþórsdóttir sem áður barðist duglega fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis er hún var lögmaður gaf út þöggunartilskipun í fyrra til allra aðila sem kynnu að koma að nauðgunarmálum á Þjóðhátíð undir yfirskyni rannsóknarhagsmuna og heilsu fórnarlamba.  Lyktaði eins og bein tilskipun frá Þjóðhátíðarnefnd.  Þarf eitthvað að ræða það frekar.  Svona ganga kaupin augljóslega fyrir sig á eyrinni í Vestmannaeyjum. Þessi skipun verður endurtekin innan skamms.  Sannið þið til.

Verst þykir mér að Eyjamenn neita að þiggja hjálp utankomandi aðila við að spyrna gegn nauðgunarmenningu hátíðarinnar.  Sem er skrítið því augljóst er að þetta lið ræður ekkert við ástandið.  Stígamót voru rekin frá eyjunni með látum fyrir að halda því fram með réttu að hátíðin sjálf væri vandamálið.  Öryggisgæslan og eftirfylgnin er ekki næg.  Aumingjar fá að vaða uppi óáreittir með skaufana sína út um buxnaklaufarnar og nauðga svefndrukknum stúlkum.  Þykir það bara fylgja hátíð sem þessari og vera eðlilegt.  Bara ekki í augum okkar hinna sem búum ekki í Eyjum.

Fáeinar öryggismyndavélar og Bleiki fíllinn duga engan veginn við að stemma stigu gegn nauðgunum á Þjóðhátíð.  Slíkar æfingar eru bara fyrir fjölmiðla.  Hérna þarf mun duglegri gæslu og stóraukinn vilja til að berja niður vesalinga sem ráðast á konur.  Við þurfum öll að hafa augum hjá okkur.  Svona menn eru skíturinn undir skónum okkar og eiga skilið að vera barðir duglega hvar sem til þeirra næst.

Frelsisflokkurinn

Svo er það hinn helmingaskiptaflokkurinn.  Sveipar sig skikkju frelsis og einkareksturs. Samt starfar þetta lið flest hjá hinu opinbera.  Aðhyllist ríkisstyrkta einkavæðingu þar sem flokkshestar fá úthlutað bitlingum sem við hin greiðum fyrir með hærri sköttum.

Með reglulegu millibili ríður einn þessara frelsiselskanda fram með áfengisfrumvarp sem veitir leyfi til sölu veiga utan ríkisrekinna vínbúða.  Frumvarp sem dagar vanalega uppi í lok kjörtímabils svo hægt sé að endurnýta það á næsta kjörtímabili.

Aldrei þorir þetta stuttbuxnalið að spyrða afnám áfengisskatta við frumvörp sín. Enda virðist Alþingi frekar vera í stuði fyrir að setja hömlur, bönn og skatta heldur en að liðka fyrir og auðvelda líf samborgara sinna.

Alla flokka á Íslandi virðist kitla í fingurgóma að keyra fram blauta drauma sína um stjórn á lýðnum.  Segja okkur hvernig við eigum að haga lífi okkar.  Hafa vit fyrir okkur því við erum svo sauðheimsk.

Ég kýs að treysta fólki til að stýra sínu lífi sjálft.  Boð og bönn eru eitur í mínum beinum og aðeins sett til að fróa þeim sem varpa þeim yfir okkur hin.  Þau gera svo sjálf það sem þeim andskotans sýnist meðan við hin neyðumst til að hlýða í blindni.