Miðbæjarrölt

Maður á mínum háa aldri hangir ekki mikið niður í miðbæ um helgar nema þegar nauðsyn krefur.  Varði þar kvöldstund á föstudaginn og náði að drösla mér þaðan með gula vagninum fyrir miðnætti heim í Kópavoginn.  Var ekki orðinn nógu drukkinn til að tíma leigubíl.

Tók óvænt þátt í popquiz með félögum úr vinnunni.  Sean Connery lék Macbeth í fyrstu kvikmyndun á verkinu árið 1961, svo við svöruðum 18. spurningunni að minnsta kosti rétt og áttum von á einum bjór í verðlaun en skildum víst svarblaðið eftir þegar við færðum okkur um set á næsta bar. Skiptir ekki máli.  Keppnin var góð.  Svona eiga happy-hour að vera.

Í gegnum kvöldið milli skemmtilegra samtala og sagna samstarfsfélaga, fylgdist ég með fólkinu sem slæddist inn um dyr baranna tveggja.  Mjög svipuðu fólki og í gamla daga, jafnvel börnum þeirra, bara betur til fara og minna drukkið.

Þrjú koma helst til greina

Að kjósa forseta snýst um tilfinningu fyrir frambjóðendunum.  Hvort þú viljir fá tiltekinn einstakling inn í stofu til þín gegnum sjónvarpið næstu fjögur árin. Að kjósa forseta snýst um tíðaranda.

Eftir 20 ára þaulsetu fyrri forseta sem virkjaði synjunarvaldið og beitti því nokkrum sinnum, hlýtur að vera kominn aftur tími á hefðbundnari forseta sem setur sjálfan sig ekki alltaf í forgrunn allra deilumála samfélagsins.

Forsetaembættið á að sameina þjóðina frekar en sundra.  Guðni, Andri og Halla virðast vera á þeirri línu og ættu að eiga sviðið. Úrelti frambjóðandinn úr Hádegismóum hefur þarna fátt að gera.  Get ekki sagt að ég hlakki til næsta mánaðar með skítadreifara Davíðs á fullum styrk.

Forseti

Mikið var nú gott hjá Ólafi að hætta við að hætta við að hætta.  Allt annað að sjá manninn. Fínt að karlgarmurinn sá að sér og kaus meiri tíma með ástvinum sínum í stað þess að hanga á Bessastöðum upp á von og óvon um óvissu landsins.  Enginn er ómissandi.

Í stað Ólafs haltraði önnur risaeðla, nú úr Hádegismóum, inn á völlinn og lýsti sig ómissandi.  Dabba Grensás finnst hann ekki hafa sungið sitt síðasta þegar kemur að stjórn landsins.  Einn póstur er eftir.  Þó segist hann ekki hafa neinn sérstakan metnað til að verða forseti.  Rétt eins og hann sé að gera einhverjum hópi af fólki (Sjálfstæðisfólki) greiða með því að bjóða sig fram. Bjóða upp á valkost gegn Guðna Th. og Andra Snæ.

Nú hefur Guðni Th. haft langmesta fylgið í þremur síðustu skoðanakönnunum, og er studdur af mörgu Sjálfstæðisfólki á miðjum aldri.  Frjálslyndu fólki sem hefur ekki fengið að láta ljós sitt skína sem skyldi í flokknum fyrir íhaldssömum græðgispungum sem þar enn ráða öllu þrátt fyrir hrunið 2008.

Sem skýrir af hverju Dabbi kóngur verður ekki forseti 25. júní næstkomandi. Hans eigin flokkssystkini styðja hann ekki einu sinni til fulls.  Stór hluti þeirra styður Guðna Th. rétt eins og fólk úr flestum öðrum flokkum nema kannski Vinstri-Grænum og Pírötum sem fylkja sér mörg á bak við Andra Snæ.

Meirihlutinn nennir ekki að fá enn einn stjórnmálaleiðtogann sem forseta. Kominn er tími á annan Kristján Eldjárn.  Vinsælan og geðþekkan aðila úr fræðaheiminum. Venjulegan mann með fjölskyldu sem hjólar með börnunum sínum í leik- og grunnskóla. Gaur sem ber sér ekki á brjóst og viðurkennir að hafa ekki svör við öllum vandamálum heimsins en viljann til að takast á við þau.  Að hann muni gera mistök og mismæla sig eins og aðrir.  Mannlegur og breyskur einstaklingur eins og við hin.  Við þurfum ekki lengur óskeikulan konung sem forseta sem telur sig ómissandi.