Aum hegðun

Við erum vissulega afurð uppeldis og umhverfis. Sjálfur ólst ég upp með hundum, köttum, fiskum, naggrísum, hömstrum, páfagaukum, dúfum og kanínum. Ekki öllum á sama tíma en þó í gegnum æskuárin.

Þar af leiðandi á ég oft erfitt með að skilja fólk sem þolir ekki dýr og vill jafnvel eitra fyrir þeim komist þau inn í garðanna þeirra um nætur.

Eitthvað undarlegt er í gangi í Hveragerði og Sandgerði. Einhver að eitra fyrir kisum og voffum bæjanna. Mikið rosalega er það aum hegðun.

Afglæpavæðingin

Amnesty International vill afglæpavæða vændi. Markmiðið er víst að fá þennan iðnað upp á borðið. Hefur samt ekki gert neina lukku í Amsterdam. Þar þrífast enn melludólgar og mansal þrátt fyrir frjálslyndari löggjöf. Þetta er víst bara tillaga enn þá og óvíst að hún hljóti nokkurn hljómgrunn á löggþingum miðað við viðbrögðin.

Íslandsdeildin vill fara sænsku leiðina sem bannar allt nema söluna, sem þá verndar þann sem neyðist til að selja sig (fórnarlambið). Er persónulega hrifnari af þeirri leið. Einhverra hluta vegna efast ég um að margar hamingjusamar hórur séu til í heiminum.

Annað mál er með smygl og neyslu ólöglegra lyfja sem ekki er sprautað í æð. Til hvers að dæma burðardýr í fangelsi fyrir að neita að benda á höfuðpaurinn sem þau skulda háar fjárhæðir? Eða þá helgardjammarann sem oftar en ekki er með hreint sakarvottorð fram að því sem hann eða hún er böstuð á tónleikum eða Þjóðhátíð með smá skammt í vasanum. Hvernig væri að nýta krafta lögreglunnar í eitthvað nytsamara!

Í mínum draumaheimi

Í mínum draumaheimi:

– er fólk ekki ofsótt fyrir að eiga, selja eða neyta vægra lyfja

– muna öryrkjar, eldri borgarar og sjúklingar lifa sómasamlegu lífi án fjárhagsáhyggja

– verður fjórflokkurinn dauður og skárra fólk tekið við stjórn landsins

– verður þaggað niður í þeim sem vilja þagga niður í fjölmiðlum

– verður freki gaurinn sviptur raddböndum sínum

– verða nauðgarar skotnir á færi…á leið í Herjólf upp á fastalandið

– verða Simmi og Bjarni ekki endurkosnir, gleymdir og tröllum gefnir

– verða ríkið og kirkjan aðskilin rétt eins og í Bandaríkjum Norður-Ameríku

– verða fautar sem kúga fjölskyldur sinar skallaðir á götum úti

– fá allar búðir að selja áfengi, hass og maríjúana

– eru miðaldra menn með gráa fiðringinn sem leita á unglingsstúlkur barðir í buff

– fá ofbeldismenn að kenna á eigin meðulum í dimmum húsasundum

– er hlegið að miðaldra mönnum sem „þykjast“ skipta út áfengi fyrir sér yngri konur

– eru hipsterar rakaðir og reknir úr þröngum buxum og flatbotna skóm

– er borgar- og bæjarfulltrúum sem vilja þétta byggð gert að búa í þéttri byggð

– eru menn sem eitra fyrir köttum og hundum með frostlegnum fiskflökum réttdræpir

meira síðar