Íslenskur túrismi

Skil ekki af hverju erlendir ferðamenn slæðast hingað upp á Klakann. Hér er ekkert að sjá nema leiðindi. Að minnsta kosti í höfuðborginni. Lundabúðir hverri annarri líkar, ljót hús og vond veður. Verðlagning upp úr öllu valdi og léleg þjónusta.

Skil vel að túristarnir vilji ganga örna sinna í íslenskum húsagörðum og þakka þannig fyrir ömurlega upplifun á þessum ofmetna klaka sem þeim var seldur sem ósnortin náttúruparadís.

Hvað er svona erfitt við að fjölga salernum? Og rukka tvær Evrur inn eins og gert er í Berlín. Ekki sá ég eftir þeim fjármunum fyrir flott og hreint salerni við minnismerkið um Helförina. Starfsmaður á vakt sem sér um að halda öllu í toppstandi. Algjör snilld. Rétt eins og á Strikinu í Kaupmannahöfn og eflaust flestum siðmenntuðum stöðum í Evrópu.

Skortur á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn er lýsandi fyrir hve gráðug við erum. Ætlumst bara til að fá þá hingað án nokkurs tilkostnaðar. Græða á þeim og senda þá svo heim í bullandi spreng. Og ef þau þurfa nauðsynlega að létta á sér er þeim bara bent á einkagarða hringinn um landið í skjóli trjáa.

„Þið eruð að djöggla með líf barnanna okkar, helvítis fólkið ykkar!“

http://nutiminn.is/thid-erud-ad-djoggla-med-lif-barnanna-okkar-helvitis-folkid-ykkar/

Fyrirsögnin hér að ofan er um það bil sú flottasta sem ég hef séð lengi á netinu. Segir allt sem segja þarf um hvernig fávitarnir í ríkisstjórninni eru kerfisbundið að brjóta niður heilbrigðiskerfið svo þau geta einkavinavætt það til fyrirtækja eins og Sinnum sem hefur séð um sjúkrahótel með svo glimrandi árangri eða hitt þó heldur.

Græðgin hjá þessu Sjálfstæðisgengi í Garðabænum á sér engin takmörk og er farin að bitna á okkur sem þurfum að leita ásjár okkar frábæra fólks í heilbrigðisgeiranum sem hefur ekki nú þegar flúið til Noregs í betri kjör og mannúðlegri vinnutíma.

Ég játa fávisku mína þegar kemur að viðskiptum, enda bara málastúdent með ókláraða B.A. gráðu í sagnfræði. Skil ekki af hverju þarf að brjóta allt niður svo einkavinir Bjarna Ben. geti byggt upp aftur fyrir margfalda þá hungurlús sem nú er varið til Landsspítalans. Hvernig telst það frjálslyndi og flott viðskipti að sölsa undir sig velferðarkerfi heillar þjóðar? Getið þið ekki bara byrjað með báðar hendur tómar eins og annað fólk í viðskiptum? Af hverju þurfið þið þessa meðgjöf frá ríkinu?

Munu hjúkrunarfræðingar fá eitthvað betur borgað í strípuðu, amerísku heilbrigðiskerfi Engeyinganna þar sem fólk sem veikist neyðist til að borga upp í topp fyrir læknisþjónustu og setja sig á hausinn í ferlinu? Hin sem ekki hafa efni á þjónustunni mega víst bara éta það sem úti frýs og deyja.

Ég greiði glaður skatta fyrir gott heilbrigðiskerfi sem fer ekki í manngreiningarálit eftir efnahag og lit á flokksskírteini. Ég hef engan áhuga á að greiða sömu upphæð eða margfalt hærri í sjóði Sinnum eða álíka fyrirtækja Garðabæjarmafíu Sjálfstæðisflokksins sem nennir ekki að auðgast samkvæmt eigin hugmyndafræði heldur blóðsýgur ríkið í staðinn og kallar það einkarekstur þegar rétta orðið er arðrán og stuldur á skatttekjum.

Ofan á skattana okkar munum við þurfa að greiða annað eins eða meira aukreitis fyrir það eitt að vekja athygli hins einkavinavædda heilbrigðiskerfis á vandamálum okkar. Skil ekki af hverju fólk er svona spennt fyrir þessari auðn velferðar sem silfurskeiðastjórnarflokkana dreymir um á nóttunni.

Minnislausa þjóðin

2015 er að verða 2007 í endursýningu á breiðtjaldi.  Við virðumst öllu hafa gleymt og höldum óhrædd áfram við að byggja ljót og kassalaga hótel í miðbænum innan um lítil, sæt og gömul hús.  Nú skal hver bæjarlækur virkjaður svo kínverskir fjárfestar geti reyst hér álver með aðstoð lífeyrissjóðanna.  Huang Nubo og Grímsstaðir heyra fortíðinni til.  Kínverjar eru allt í einu orðnir okkar bestu vinir.

Er minnið ekki lengra hjá einni þjóð. Erum við búin að gleyma hruninu? Af hverju eru bankarnir þrír aftur byrjaðir að græða á tá og fingri? Á hinum Norðurlöndunum þykir hóflegur gróði við hæfi meðan þeir byggja hægt upp og styðja við þjóðfélagið.  Hérna blóðmjólka bankarnir okkur og skilja eftir sviðna jörð.  Bera enga samfélagsábyrgð.

Næsta hrun er handan hornsins og mun skella á okkur af fullum krafti fyrr en varir því við neitum að læra af reynslunni.  Græðgin mun koma okkur aftur í gröfina og í þetta sinn til frambúðar.  Raunir Grikklands munu verða hljóm eitt í samanburði við fall Íslands á næsta eða þar næsta ári.