Ég er glæpamaður!

Mér finnst bjór góður af og til. Að kála nokkrum hrímuðum eina kvöldstund með góða tónlist í bakgrunninum sveimandi í gegnum netið.

En hef ekki farið í Ríkið í tíu mánuði sökum fótameins. Bara pantað á netinu og fengið heimsent frá verslun með erlent heimilisfang. Greitt fáeinar krónur meira en sloppið við að haltra og bera veigarnar upp á þriðju hæð.

Sem gerir mig að glæpamanni samkvæmt siðapostulunum í Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum. Söfnuði síðmiðaldra leiðindaskjóða sem geta ekki unað öðrum að dreypa á smá bjór og víni til hátíðarbrigða.

Banna, banna, banna er þeirra mantra. Hvernig væri að banna þeim að vera svona leiðinleg!

James Earl Carter jr.

Þá er besti forseti Bandaríkjanna horfinn á braut til forfeðra sinna aldargamall. Hnetubóndi, liðþjálfi í kafbátaflotanum og fyrrum ríkisstjóri Georgiafylkis.

Strangtrúaður Suðurríkjamaður og stakt góðmenni. Laus við alla klæki og lesti. Uppáhalds fyrrum forsetinn sem byggði með eigin höndum ótal húsnæði fyrir þá sem minna máttu sín.

Man hvað mér þótti hann mun góðlegri en Reagan þegar ég var sjö ára gamall. Held að ég hafi gerst Demokrati einmitt þá og æ síðan.

Hvíl í friði

Siðlausi siðfræðingurinn, Stefán Einar Stefánsson lauk náttúrulega árinu með viðtali við meistara sinn Bjarna Benediktsson, formann flokksins þeirra. Og leyfði honum að ræpa duglega yfir nýja ríkisstjórn.

Og afsaka mögulega frestun á landsfundi svo hann geti hangið lengur sem formaður og kveðið niður mótframboð. Talandi um flokk sem ætlar sér að tortíma sjálfum sér eftir afhroð í síðustu kosningum.