Sorglegir valkostir

Ótrúlegt að stórveldi sem telur þrjúhundruð og eitthvað milljónir skuli ekki geta komið sér upp betri frambjóðendum en þessa ellibelgi.

Annar hraðlyginn spillingarpési sem hvatti til uppreisnar eftir versta kjörtímabil nokkurs forseta og hefur ekki enn verið kærður fyrir landráð og tekinn af lífi af fimm manna aftökusveit. Og enn spurning hvort hann hafi sigrað í raun og veru án aðstoðar rússneskra hakkara.

Hinn farsæll varaforseti og forseti sem skilar góðu búi, en er orðinn frekar hrumur og má alveg við að fara hvíla sig eftir langan feril sem opinber þjónn landsins. Besta sem hann gæti gert er að draga sig í hlé og hleypa öðrum að. Viðurkenna elli sína.

Annar kostur fyrir Demókrata væri að skipta út óvinsælu varaforsetaefni svo bandarísk þjóð eygði einhverja framtíð með því að kjósa Joe Biden.

Draumurinn væri náttúrulega Clooney/Springsteen. George Clooney sem forseti og Bruce Springsteen sem varaforseti.

Næturvökur fram á morgun

…eru ávísun á þunglyndi. Svo mikið veit ég eftir hangs heima síðustu fjóra mánuði. Gildir einu hvort bjórþamb sé í gangi eða ekki. Niðurstaðan er alltaf kvíði og þunglyndi því þú svafst ekki nóttina áður.

Þú slekkur á símanum og vonar að enginn hringi. Dregur fyrir og sængina upp fyrir haus í veikri von um að þú fáir að vera í friði fram á kvöld til þess eins að endurtaka leikinn næstu nótt.

En ekki lengur. Sumarið er loksins komið!

Fulltrúalýðræðið er DAUTT!

Rétt eins og sendiherrar og ríkisstjórnir. Allt gamaldags drasl búið til svo ríkjandi stétt geti haldið völdum sínum og kúgað okkur hin.

Í tæknivæddum heimi nútímans er hægt að viðhalda beinu lýðræði í gegnum tölvur, spjöld og síma. En gamaldags valdaflokkar vilja það ekki því þá munu þeir tapa völdum sínum til að mynda samsteypustjórnir við Vinstri-Græna a la Borgarnes.

Trúi ekki öðru en að hægt sé að fá fram vilja þjóðinnar með öðrum hætti en að hún mæti á kjörstað með vegabréf eða ökuskírteini til að sanna tilvist sína. Og eftirláta svo misspilltum sendisveinum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að sjá um talninguna.

Af hverju ekki bara í gegnum netið með Auðkenni, blóðsýni, fingrafari eða augnskanna? Í gegnum óháðan aðila út í heimi.