Leyfum skrímslunum að elta halann á sjálfum sér

Ætla rétt að vona að íslensk stjórnvöld fari ekki að senda samúðarkveðjur vestur um haf því einhver stakur hægriöfgaæsingamaður var myrtur af öðrum hægriöfgamanni. Kemur okkur ekkert við og alveg fáranlegt að gera þennan gaur að einhverjum píslarvætti og táknmynd frjálsra skoðanaskipta. Hann var nasisti aftan úr forneskju sem huldi hatur sitt með kristnum gildum.

Að ætlast til að allir lúti höfði og biðji fyrir honum er álíka fáranlegt. Rétt eins og forseti fulltrúadeildarinnar ætlaðist til og einhver bjáni á Evrópuþinginu ætlaðist einnig til. Þessi þóknun við fylgisveina Trump er sorgleg. Förum ekki að taka þátt í amerískri skautun. Eigum nóg með okkur.

Að því sögðu er auðvitað ömurlegt að æpandi bjánar séu líflátnir úr launsátri og gerðir að píslarvottum. Réttur sérhvers einstaklings til að vera vitleysingur er óumdeildur. Þeir geta ekkert að því gert að hafa fæðst svona. Þurfum líka ekkert að hlusta á bullið sem vellur upp úr þeim. Er algjörlega valkvætt. Og algjör óþarfi að myrða þá. Þeir sjá um slíkt sjálfir innan síns sértrúarsafnaðar.

„Torfkofi í jakkafötum“

Þannig lýsir Bubbi Morthens Snorra Mássyni og skoðunum hans. Allt í lagi, en má Snorri ekki hafa sínar forneskjulegu skoðanir án þess að vera krossfestur á netinu? Að heimilisfangið hans sé birt og að sérsveitin þurfi að sitja fyrir utan næturlangt af ótta við að einhverjir vitleysingjar mæti á svæðið.

Og af hverju eru samkynhneigðir og allt hitt liðið í Samtökunum 78 að kveinka sér svona undan orðræðu Snorra? Ekki eins og að bakslagið sé svo slæmt hérlendis miðað við Bandaríkin og önnur lönd að grípa þurfi til ritskoðunar. Hér styðja flestir málstað homma, lesbía, fólks með blönduð kyneinkenni og á rófinu.

Upp á venjulegt fangaviðurværi

Aldrei fara á bráðamóttökuna í Fossvogi. Verður bara lagður inn. GRÍN!

Mætti þangað á laugardagskvöldið síðastliðið með sýkingu í fæti í leit að sýklalyfi í töfluformi en var umsvifalaust lagður inn og æðaleggur settur í mig. Ákváðu að beita stórskotaliðinu strax í stað þess að senda fótgönguliða út á vígvöllinn til að vera stráfelldir.

Lá þarna í fjórar nætur alls með þremur öðrum prumpandi og hrjótandi körlum. Spurði eftir fyrstu nóttina hvort við værum fimm þarna inni því ég heyrði fjórar mismunandi raddir. Sjúkraliðinn fölnaði í framan. Þarna hafa eflaust margir kvatt líf sitt í gegnum tíðina og einhver orðið eftir talandi inn í nóttina.

Fyrsta nóttin var þó í rúmi á bráðadeildinni sem ég fékk undir morgun eftir setu niðri með tveimur skuggalegum gaurum frá Miðausturlöndum sem bentu á mig og hlógu. Mömmu og pabba með hnjaskaða syni sína. Grátandi ungri konu sem fór án þess að fá aðstoð. Í kringum okkur sveimuðu útblásnir sterar. Útkýldir með hjartaflökt, minnimáttakennd og handtökur á bakinu. Lögreglan tilbúin með handjárnin. Einum gaur var vísað á tannlækni eftir kjaftshögg kvöldsins.

Læknirinn tjáði mér kátur að ég yrði þarna næstu sjö til tíu daga með í æð. Mér varð um og ó. Tilkynnti honum að slíkt kæmi ekki til greina. Sérfræðingurinn með honum sagði hinsvegar að ég færi sennilega heim eftir tvo til þrjá daga með töflur í nesti. Sem stóðst.

Glaður hélt ég út í síðustu sól sumarsins með bréf upp á vasann með leiðbeiningum frá lækninum. Snepill sem ég neyddist til að bíða eftir í tvo tíma sitjandi á rúmbríkinni eins og skólapiltur.

Lokaviðvörun! Nú verður allt daður við sykur og sukkmat að hætta. Gildin voru fín meðan ég lá inni og át fisk og annan hefðbundinn mömmumat. Langar ekki til að missa fæturna eða getuna til að ganga. Nóg að vera kominn með einn Charcot-fót.