Vikuröflið

Svo mikið er víst að það verður ekki samið við BHM og hjúkrunarfræðinga. Öryrkjar og eldri borgarar fá ekki túskilding með gati. Bjarni Ben. segir svo og ætlar að standa við það. Gott að fæðast með silfurskeið í munninum og þurfa ekki að kvíða ævikvöldinu.

Allir hrópandi húrra yfir lyftingu gjaldeyrishafta. Jafnvel stjórnarandstaðan mígur á sig af spenningi. Ég ætla að bíða eftir smáa letrinu áður en ég fer að dansa á götum úti. Hér er ekki allt með felldu. Til að mynda virðist eiga að selja bankana aftur fyrir slikk í hendur gæðinga stjórnarflokkanna rétt eins og gerðist fyrir hrun. Orðið á götunni segir að Engeyingar fái annað hvort Landsbankann eða Íslandsbanka á silfurfati. Hér lærir enginn af reynslunni. Síst af öllu þegar helmingaskiptareglan á í hlut.

Þvílík afmælisgjöf sem konur fá frá ríkisstjórninni þegar 100 ár eru liðin frá því að þær náðarsamlegast fengu kosningarrétt. Verkfallsrétturinn tekinn af þeim meðan læknar fengu feita leiðréttingu á sínum launum. Núverandi meirihluti er svo karllægur að það hálfa væri nóg. Hrútalyktin leikur um alla ganga Stjórnarráðsins.

Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsti þingmaður Framsóknar og Alþingis, er svo forn í hugsun að mér hugnast ekki tillaga hennar um að fjölga þingmönnum undir 35 ára aldri.  Ekki ef þeir eiga að vera jafn íhaldssamir og leiðinlegir og hún.  En það er svar hennar við frábærri tillögu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um kvennaþing þau tvö ár sem eftir lifir af kjörtímabilinu.

Samfélagsástandið

Tvær systur reyna að næla sér í smá hluta af drjúgum auði aðals og eru handteknar. Eru aftur teknar höndum fyrir að þiggja bætur fyrir nauðgun frá einhverjum vafasömum gosa með gamalt og virt ættarnafn.  Myndi vera tekið svona harkalega á þeim af yfirvöldum og dómstóli götunnar ef þær væru bræður? Konum er refsað verr en körlum fyrir að misstíga sig.

Landið logar í verkföllum og eina sem ríkisstjórnin færir fram er einhver óljós sáttanefnd sem á að leysa málin svo ekki komi til lagasetningar.  Í stað þess að taka á vandanum er honum varpað áfram yfir á einhverja aðra ótilgreinda. Lengt í hengingarólinni í stað þess að bara semja og ljúka verkföllunum. – Talandi um verklausa ríkisstjórn!

Dónakallar landsins skjálfa á beinunum vegna Beauty Tips á Facebook.  Síðu sem spratt upp úr spurningunni „hefur þú lent í Sveini Andra?“  Lýsingar fórnarlambanna eru orðnar það nákvæmar að nöfn níðinganna eru nánast óþörf. Lesendur kveikja strax á perunni.  Skömminni er skilað til heimahúsanna þar sem hún á heima.

Hér hefur dónaskapurinn og níðingshátturinn fengið að þrífast óáreittur áratugum saman undir vernd dómstóla og ráðandi afla = feðraveldisins.  Löngu kominn tími til að konur fái að njóta sín án áreitis frá dónalegum körlum með typpin hangandi út um buxnaklaufar.

#Þöggun

http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2015/05/29/segir_sogu_sina_vard_fyrir_hopnaudgun_17_ara/

Netbylting á sér stað á leynilegri og lokaðri Face­booksíðu Beauty Tips. Þar koma konur fram í hrönnum og skila skömminni til gerenda sinna. Segja sínar sorglegu sögur. Sem er gott og vonandi frelsandi fyrir fórnarlömb lítilla, ljótra karla sem vanalega sleppa alveg við refsingu fyrir glæpi sína því karlægt dómskerfi verndar þá undir því yfirskini að sönnunargögn og vitni skorti.

Ömurlegt hve margir kynbræðra minna eru illa innrættir og heimskir og koma fram við konur eins og dauða hluti í stað jafningja og félaga. Hvað er svona flókið? Stundum skammast ég mín fyrir að hafa fæðst drengur. Hvað er svona merkilegt að vera með pung?